<$BlogRSDURL$>

júlí 24, 2007

Lokablogg 

Þetta er lokablogg á þessari síðu. Framvegis verða dagbókarfærslur mínar á nýjum stað - www.thorunn.org .

júní 17, 2007

Síungir júbilantar 

Akureyrarferðin fór eins og til var ætlast. Bílnum skilað, bakið myndað, frænka heimsótt og síðast en ekki síst óvissuferðin. Það var GAMAN, og hvað við erum öll kornung !

Í dag var svo verið að skíra litla frænda minn, hann Harald Einar og það er ekki að sjá annað en að honum líki nafnið.

júní 13, 2007

Á leið norður .... 

Ég er að fara norður á Akureyri á morgun. Þarf að láta taka myndir af bakinu á mér, þar sem einhverjar vísbendingar um brjósklos hafa verið að láta á sér kræla. Það er þó ekki eina erindið, því ég er líka að fara að skila Fúsa litla, bílnum sem þjónað hefur mér og mínum dyggilega í rúm þrjú ár. Nú fá þeir í Brimborg hann aftur en ég fæ væntanlega nýjan Fúsa áður en langt um líður. Ég ætla líka að kíkja á Öddu frænku, sem dansaði sig inn á sjúkrahús um daginn. Hjartað mótmælti, en hún er líka komin töluvert á níræðisaldur, blessunin. Hún er komin heim "að syrgja sjálfa sig" eins og hún orðar það sjálf.
Síðast en ekki síst ætla ég að hitta hópa af kornungu fólki, sem eins og ég, útskrifuðust sem stúdentar úr MA vorið 1977 - fyrir 30 árum síðan. Við ætlum í óvissuferð á föstudaginn, en það er nú samt búið að gefa út meginlínur ferðarinnar. Eitt er samt öruggt: Það verður gaman !

júní 08, 2007

Af vatnsmálum og grilli 

Í gærkvöldi hélt bóndi minn áfram að moka. Nágranni okkar kom og hjálpaði honum, en ég tók tæplega 3ja ára dóttur hans að mér á meðan. Býsna skelegg og skemmtileg stúlka. Vatnið komst í lag og nú á bara eftir að fylla upp í holuna og ganga frá aftur.
Grillið er hins vegar óþrifið enn - Lata Gréta ætlar að fresta för sinni á Hallormsstað til morguns, þykist vera að fara í brýnum erindagjörðum í RL-búðina á Akureyri. Getur verið að það standi í einhverju sambandi við þetta óþverraverk sem stendur fyrir dyrum ?

júní 06, 2007

Þrennt í einu 

Það er stundum sagt að óhöpp komi oft þrjú saman. Það var alla vega það sem gerðist hjá mér í dag eftir að ég kom heim úr vinnunni. Við bakdyrnar hjá mér var heilmikill vatnselgur, sem reyndist koma undan einni hellunni í stéttinni. Sennilega bilaður stoppkrani þarna niðri og næstu kvöld fara í að grafa, finna lekann og gera við. Þar sem veðrið var gott, ákvað ég að grilla kjúklingabringur sem ég átti í ísskápnum, eitt af því fáa sem fékkst í kaupfélaginu í gær. Þegar ég opnaði pakkann, var lyktin viðbjóðsleg, þær voru dragúldnar - sennilega afleiðing af vatnsleysi og skorti á kælingu í versluninni í gær. Nema hvað, þær fóru beint út í tunnu. Ég var auðvitað búin að kveikja á grillinu þegar þetta var, kartöflurnar komnar út og allt tilbúið fyrir kjötið. Ég tafðist dálítið yfir ónýta kjötinu og við að horfa á bóndann moka stóra holu við útidyrnar, þannig að þegar ég kom út og ætlaði að fara að slökkva á grillinu, þar sem ekkert var kjötið til að grilla, skíðlogaði í öllu þar úti. Það þarf því ekki bara að moka holu og finna leka, heldur er töluvert verk framundan við að þrífa sót af grillinu.

Vona að það séu ekki 3x3 í dæminu.

júní 04, 2007

Ferð á Vestfirði 

Vestfirðirnir skörtuðu sínu fegursta þann tíma sem við dvöldum þar. Sól og blíða allan tímann. Þeir sögðu líka vestfirðingarnir að á sumrin væri alltaf sól og logn, nema hvað tíunda hvern dag rigndi milli 1 og 4 á nóttunni.
Við fundum reyndar út að stundum fer lognið dálítið hratt hjá þeim.

Við lentum sem sé á Ísafjarðarflugvelli á fimmtudagskvöldi. Lítið gert annað en að borða og kíkja smá á Langa Manga, þar sem reykingamennirnir sátu og nýttu síðasta sénsinn. Föstudeginum eyddi ég í bæjarráp fyrripartinn og vinnu seinni partinn. Um kvöldið heimsóttum við vini okkar til margra ára, sem búa þarna vesturfrá. Þau buðu okkur í bíltúr á Suðureyri og Flateyri. Frábært veður og fallegt að sjá firðina spegilslétta í kvöldsólinni.
Á laugardaginn fórum við þrjár saman í sund á Suðureyri, síðan fór allur hópurinn í skoðunarferð inn í Tungudal, Seljalandsdal, Bolungavík og Ósvör. Loks var farið í Neðstakaupstað og þar biðu okkar alls kyns kræsingar.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður og ball á eftir. Það var búið klukkan eitt um nóttina. Þá fengum við nokkur þá brjáluðu hugmynd að fara á sjómannadagsball í Bolungavík, sem við og gerðum.
Heimferðin í gær tók nokkrum breytingum frá áætlun. Ekki var hægt að lenda á Ísafirði og því vorum við keyrð til Þingeyrar og tafðist því brottför okkar frá Vestfjörðum um góðan klukkutíma. Einnig var nokkur frestun á fluginu austur, þannig að við vorum ekki komin heim fyrr en síðdegis í gær. En sem sagt, ljómandi skemmtileg ferð á Vestfirðina.

maí 28, 2007

Hvítasunnublogg 

Ég hef verið heima hjá mér um helgina og þeir bóndi minn og björninn hafa verið hér líka. Þeir hafa ekki getað stillt sig um að vinna svolítið og ég ekki heldur. Munurinn er bara sá að ég ligg uppi í sófa með fartölvuna mína og bý til heimasíðu meðan þeir stússast uppi á fjöllum í vegagerð eða í gróðrarstöð að hugsa um plöntur, húsbyggingar og peninga.
Heimasíðan sem ég er að gera er sú fyrsta sem ég set upp í Joomla-vefumsjónarkerfi. Tjörvi tók mig í "lynkurs" í fræðunum á föstudag og svo hef ég legið yfir þessu meira og minna um helgina. Síðan er ekki formlega komin í loftið enn, enda ekki búið að tengja endanlegt lén við hana. En ef þið hafið áhuga á að skoða, er hún vistuð hér. Það á eftir að setja inn töluvert af efni, en ramminn að mestu leyti kominn. Öll uppbyggileg gagnrýni er vel þegin, en ég frábið mér alla neikvæða umfjöllun.
Ef þið hins vegar heillist alveg af þessari snilld, get ég útvegað ykkur síðu af þessu tagi fyrir sanngjarna upphæð.
Um næstu helgi ætla ég að fara með bónda mínum vestur á Ísafjörð. Vænti ég þess að vestfirðir skarti sínu fegursta veðri og umhverfi, þar sem þetta verður aðeins í annað skipti á minni ævi sem ég kem þangað vestur.

maí 21, 2007

Sólin skín ... 

Það er sólskin í dag, en ekki sérlega hlýtt þrátt fyrir það.
Það er búið að vera heilmikið að gerast undanfarna daga. Björninn minn var heima, það var haldið ball í Valaskjálf í fyrsta sinn í langan tíma, ég heimsótti Steinasafn Petru á Stöðvarfirði, verið er að planleggja ferðir í ýmsar áttir, en ekkert endanlega ákveðið enn og svo ég ætla ekkert að vera að tjá mig um það hér.
Það sem er neikvætt er að sundlaugin er lokuð vegna viðgerða og hreinsunar í 3 daga. Ég verð orðin illa farin af sundleysi þá. Ætti ég kannski að skreppa í laugina á Eskifirði ? Þessa sem þeir kalla Efnalaugina. Veit ekki, er ekkert sérstaklega spennt. Kannski laugin á Hallormsstað sé í gangi og hægt að smygla sér þangað. Best að tékka á því.

maí 17, 2007

Sitt lítið af hverju..... 

Nýja, ódýra fartölvan sem ég keypti um daginn og reyndist vera með Vista-stýrikerfi var straujuð í gær og á hana sett XP pro. Skil ekki tilganginn með því að hafa stýrikerfið svo flókið og þungt að allt vinnsluminni vélarinnar sé bundið í að sinna hennar þörfum en ekki notandans. Ég var sem sagt að dunda við þetta með öðru í gærkvöldi. Ég sleppti líka að setja á hana allan þann haug af dóti sem IBM/Lenovo-vélarnar eru komnar með. Finnst best að sjá um þetta sjálf. Er bara komin með þokkalega spræka fartölvu fyrir vikið.

Björninn minn kom heim undir miðnættið. Hefur ekki komið austur í meira en hálft ár. Fékk svona "týnda sonar"-tilfelli í Bónus. Keypti bæði lambakjöt til að grilla í kvöld og hangiframpart, sem soðinn var í gærkvöldi.

Samfylkingarrósirnar sem bóndinn kom með heim viku fyrir kosningar voru farnar að drúpa höfði og visna þegar ég kom heim úr vinnunni. Ætli það sé vísbending um það sem gerist ef DS verður niðurstaðan í stjórnarmyndun. S fölnar og visnar eins og B-, en D fitnar eins og púkinn á fjósbitanum.

Best að reyna að klára peysuna sem ég er að prjóna á litla grjónið, hana sonardóttur mína og svo er á stefnuskránni að fara í skógargöngu síðdegis.

maí 15, 2007

Ég lifi.... 

Nei, ég er hvorki dauð né alltaf í boltanum. Bara búið að vera töluvert að gera og ég haldin bloggleti. Nenni ekki að skrifa um pólitík, veðrið hefur ekki verið frásagnarhæft, því ein af ástæðunum fyrir því að margir halda að það sé alltaf gott veður fyrir austan, er sú að við höfum vit á að þegja yfir vondu veðri en láta alla vita af góða veðrinu.
Ég var í kjörstjórn og ríkissjónvarpið sá meira að segja ástæðu til að sýna hvað ég var virðuleg í embættinu (í fréttunum í gær).
Ég fór á ráðstefnu í Reykjavík á föstudaginn, flutti þar stuttan fyrirlestur og fræddist mikið af fyrirlestrum annarra.
Ég varð líka svo fræg að berja Risessuna augum, þar sem hún sprangaði um götur borgarinnar. Skemmtilegt framtak.
Strákarnir mínir kláruðu prófin sín með sóma og geta borið höfuðið hátt - ég er alveg rígmontin af þeim. Þeir eru svo báðir komnir á fullt í vinnu, frumburðurinn í Hafnarfirði en Björninn minn norður í Skagafirði.

Ætla að gera lokatilraun til að halda blogginu gangandi. Ef ég sofna verður það sennilega svefninn langi.

apríl 25, 2007

Bloggleti 

Ég nenni ekki að blogga þessa dagana. Það eru alls konar atburðir í gangi í kringum mig eins og alltaf er. Ég var að panta mér bíl og bóndinn seldi gamla Volvoinn, eða réttara sagt: Ég seldi gamla Volvoinn fyrir hann.

Vorið er að koma, fuglarnir farnir að vekja mann á morgnana. Búin að grilla einu sinni og hvaðeina. Ekki það, við grillum iðulega á veturna, aðventugrillveislur eru skemmtilegar.

Það eru líka að koma kosningar en vandinn er sá að ég veit ekki enn hvað ég ætla að kjósa. Ég veit nokkurn veginn hvað ég ætla ekki að kjósa, en það er kannski ekki nóg.

Í vinnunni er nóg af verkefnum. Í síðustu viku fór ég norður á Akureyri og hélt fyrirlestur á ráðstefnu LÍSA-samtakanna um Grænsíðu-verkefnið. Það var um það talað að setja fyrirlestrana á netið, en ég veit ekki hvort þeir eru komnir inn.

Í maí verðum við svo á ráðstefnu í Reykjavík með svipaða kynningu, veit ekki hvort ég verð með fyrirlesturinn eða Fjölnir, en við verðum alla vega bæði þarna til að svara fyrirspurnum.

Mér leiðist sem sé ekkert - það er ekki þess vegna sem ég nenni ekki að blogga.

apríl 08, 2007

Páskafjör í skóginum ! 


Það er búið að vera býsna fjörugt í kotinu yfir páskana. Aðalskemmtikrafturinn er Heiður Ösp, sem er einstaklega skemmtileg og geðgóð stúlka (eins og hún á kyn til :)) !
Hún er dugleg að leika sér og farin að segja þó nokkur orð. Klukkur eru í sérstöku uppáhaldi hjá henni - kukka, tittatt - svo er - sjáu, koddu, hæ, dudda - og þó nokkur fleiri sem eru eiginlega svona margnota. Eitt nýtt orð - iska - er notað yfir óróa sem hangir í stofunni og á eru margir og marglitir fiskar. Þennan óróa gáfu mér fyrrverandi samstarfsmenn mínir mér þegar ég hætti að vinna í Hallormsstaðaskóla, með þeim orðum að óróinn væri eins og þau; litrík og á eilífu flökti.

Gleðilega páska !

apríl 04, 2007

Jæja þá, ég er komin heim ! 

Ég er búin að vera á kafi í öllu mögulegu síðan ég kom heim. Skruppum í 120 (2x60) ára afmæli hjá heiðurhjónunum á Kerhömrum - veislan var reyndar á Djúpavogi - en þetta var skemmtilegt afmæli.

Svo er vinnan mín er eins og óhreinindi, hleypur ekkert burtu þó maður skreppi frá í 2-3 vikur. Enginn sem leysir mig af, byrjaði bara þar sem frá var horfið 13. mars.
En nú er komið páskafrí, frumburðurinn kominn heim og er þessa stundina að sækja konu sína og dóttur á flugvöllinn. Þau ætla að vera hérna hjá okkur næstu daga og það verður sko ekki leiðinlegt ! Amma og afi geta varla beðið !

mars 25, 2007

Thad styttist í heimferd 

Bara 3 dagar eftir. Rannveig farin ad sakna kattarins og hreina vatnsins, en búin ad sjá ýmsar nothaefar adferdir vid ad kraekja sér í mann. Hún getur sennilega haldid námskeid thegar heim kemur. Adferd konunnar í bláa pilsinu, sem hún lýsit á sínu bloggi er ein theirra. Hún nefnir samt ekki thjóninn sem baud henni nudd medan vid bidum eftir matnum okkar á strandbarnum í dag, thad er onnur saga.
Ég er svolítid farin ad sakna sundlaugar med fersku vatni, dálítid threytandi til lengdar thetta salta vatn. Annars bara allt gott.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?